Ferðalög, keppnir eða rólegheit

Hjólamenning er margskonar og flestir sem hjóla hugsa ekki um það sem eitthvað sérstakt, ekki frekar en að ganga um götur bæjarins. En hjólreiðamenn setja svip sinn á hverja borg og eru tákn um heilbrigðan lífsstíl borgarbúa.

Sumir hjóla allra sinna ferða, aðrir bara suma daga vikunnar og enn aðrir bara á góðviðrisdögum á sumrin. Allt er þetta góð hreyfing. Það er skemmtileg útivist að hjóla um með börnin eða með vinunum.

Að ferðast um á reiðhjóli til vinnu er auðvelt, sjálfstætt, hagkvæmt, milliliðalaust, heilsusamlegt og skemmtilegt. Ef menn bera sig rétt að eru hjólreiðar öruggur ferðamáti. Hægt er að ferðast hratt eða hægt. Hjólreiðamenn eru oft sneggri milli staða í borgum en einnig er hægt að taka lífinu með ró þegar þannig stendur á, velja útivistarstíg og njóta útsýnisins og mannlífsins.

Fjallahjólaklúbburinn er ekki eingöngu fyrir þá sem hafa áhuga á fjallahjólum og því að hjóla á slíkum hjólum. Hann rúmar öll svið og hefur verið drifkrafturinn í hagsmunagæslunni sem nú er unnin innan Landssamtaka hjólreiðamanna þar sem ÍFHK er eitt stærsta aðildarfélagið.

Vefur Landssamtaka hjólreiðamanna hefur að markmiði að kynna og efla hjólamenningu í viðbót við hefðbundna kynningu á starfi LHM. Þar eru fréttir af fólki, uppákomum, útbúnaði og ýmsum fróðleik utan úr heim til viðbótar við það sem fjallað er um á vefum klúbbanna og víðar því allt er þetta okkar hjólamenning.

Á vef Fjallahjólaklúbbsins er fjallað um starfsemi klúbbsins í víðu samhengi og fjöldi ferðasagna og tæknigreina á íslensku eru aðgengilegar þar. Á vefnum er að finna margvíslegt efni frá því 21 ári sem liðið eru frá því að klúbburinn var stofnaður 1989.Einnig er vert að skrá sig á póstlistann sem flytur fréttir og fjallar um viðburði sem oft eru ákveðnir með stuttum fyrirvara.

Á vef hjólreiðasambands íslands, áður hjólanefndar ÍSÍ, má lesa um keppnishald en Hjólreiðafélag Reykjavíkur,  Hjólamenn og fleiri sportfélög halda utan um hjólasportið á sínum vefum og öll eru félögin með spjallsíður fyrir skoðanaskipti sem gaman er að fylgjast með. Þar er gott að leita sér ráða.

Lítið á fjallahjolaklubburinn.is, vef Landssamtaka hjólreiðamanna og heimasíður hjólafélaganna sem vísað er á hér í valmyndinni og athugið hvort þar sé eitthvað sem höfðar til ykkar.

Að auki er mikið grasrótarstarf unnið. Út um allt land starfa litlir hjólahópar á sínum eigin forsendum og ungmennafélög eru með ýmis spennandi verkefni.