Hjólreiðar - 2013

Gefið út í samvinnu Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna
og dreift m.a. í tengslum við Hjólað í vinnuna keppnina

 

Leiðarinn:

Fræðslustarf LHM og ÍFHK
Landssamtök hjólreiðamanna og Fjallahjólaklúbburinn standa að baki þessari útgáfu. Markmiðið með útgáfunni er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi hjólandi við aðra vegfarendur.

Þetta er fjórða útgáfa þessa kennsluefnis sem við gáfum fyrst út 2008. Fyrstu þrem útgáfunum var dreift í 26.500 eintökum auk þess sem það er aðgengilegt á heimasíðum okkar. Páll Guðjónsson þýddi og aðlagaði fyrstu útgáfuna en Árni Davíðsson vann textann betur í síðari útgáfum og ýmsir aðrir hafa lagt til punkta og gert þessar útgáfur mögulegar. Öll vinna við hönnun, útgáfu og dreifingu er unnin af sjálfboðaliðum.

Þessi tækni samgönguhjólreiða er kennd um allan heim og oft með skipulögðum hætti af yfirvöldum. Hjólafærni á Íslandi bíður upp á kennslu í samgönguhjólreiðum ásamt margs­konar þjónustu, fyrirlestrum, ástandsskoðun reiðhjóla með Dr. Bæk og fl.

Til marks um hversu alþjóðleg skilaboðin eru má nefna að veggspjöldin þrjú hér aftaná eru úr umferðaröryggisherferð sem er nú í gangi í Singapore og fengum við hönnuðinn til að útbúa þau á íslensku fyrir okkur.

Umferð hjólandi hefur ríflega 2-3 faldast á fáum árum og fjöldi gangandi vegfarenda hefur einnig aukist. Það eru jákvæðar fréttir en aukinni umferð hefur fylgt meiri núningur milli þessarra hópa vegfarenda sem notar að mestu leyti sama stígakerfi.

Öryggi er ekki bara fólgið í aðbúnaði heldur einnig atferli. Allir þátt­takendur í umferðinni þurfa að sýna tillitsemi til að umferðin á stígum og götum gangi slysalaust og greiðlega fyrir sig.

Hlutur hjólamenningar í öryggi hjólandi er vanmetinn. Þau lönd þar sem öryggi hjólandi er mest einkennast ekki bara af góðum aðbúnaði hjólandi heldur líka af jöfnum hraða og ríkri hjólamenningu. Við sem hjólum ættum að reyna að tileinka okkar góða hjólamenningu. Vera tillitsöm, hjóla á jöfnum hraða, hægja á þar sem sýn fram á veginn er takmörkuð, nota bjölluna, bjóða góðan daginn og fara varlega fram hjá gangandi vegfarendum.

Árni Davíðsson og Páll Guðjónsson