IMG_8612

Með því að velja reiðhjólið sitt til að komast á milli staða hafa þúsundir manna komist að því að hjólreiðar hjálpa til í baráttunni við aukakílóin án megrunar, með þeim sparast peningar og hjólreiðamenn njóta lengra og heilbrigðara lífs. Að auki gætir þú hjálpað til að gera Ísland að betri stað til að búa á.

Betra útlit

Þú brennir fitu við rólegar hjólreiðar. Ef þú ferð þinna ferða hjólandi, til dæmis til vinnu, getur það hjálpað þér að léttast og laga línurnar. Það eru auðvelt að hafa stjórn á  því hversu mikið þú leggur á þig og því eru hjólreiðar átakalaus og ákjósanleg hreyfing þó þú sért komin úr formi.

Betri líðan

Ef þú ferðast um í bíl verður þú fyrir u.þ.b. 25% meiri mengun en ef þú ferðaðist um á reiðhjóli eða gangandi. Þetta getur valdið höfuðverk, augnþreytu, astma og óþægindum í öndunarfærum. Í hvert skipti sem þú reynir á þig, sérstaklega utandyra, styrkir þú ónæmiskerfið sem ver þig fyrir sjúkdómum. Auk jákvæðra áhrifa á líkamann eru hjólreiðar líka vörn gegn og hjálp við að komast yfir þunglyndi.

Peningasparnaður

Að göngu frátaldri eru hjólreiðar ódýrasti fararmátinn. Þær eru margfalt ódýrari en almenningssamgöngur eða akstur. Þó þær henti ekki til allra ferða þá eru það stuttu ferðirnar sem henta best hjólreiðum og þær eru  jafnframt þær sem verst henta bílnum þínum, fjárhagnum og umhverfinu. Með því að hjóla á áfangastað þarftu heldur ekki að hafa áhyggjur af bílastæðagjöldum.

Lengra líf

Þú dregur úr hættunni á hjarta sjúkdómum, krabbameini, offitu, öndunarfærasjúkdómum og sykursýki um leið og þú stundar hóflega hreyfingu. Og ef þú hreyfir þig reglulega, t.d. með því að hjóla til vinnu, nýtur þú hreysti á við þá sem eru tíu árum yngri.

Sparaðu þér tíma

Um 60% af öllum ferðum innan höfuð­borgarsvæðisins eru styttri en 3 km. Fjórð­ungur allra ekinna ferða eru styttri en 1 km. og yfir helmingur styttri en 2 km. Hjólreiðamaður í meðalformi getur farið allt að 5-6 km vegalengd á 15-20 mínútum. Þetta er því talsvert stórt svæði, en hringur með 5 km. radíus dekkar mest allt svæði Reykjavíkur innan Elliðaáa, Seltjarnarness og eldri hluta Kópavogs. Sjá korterskort Reykjavíkurborgar.

Styrktu heilann

Regluleg hreyfing styrkir fleira en líkamann. Fólk sem byrjar daginn með því að hjóla til vinnu eða í skóla er meira vakandi, hefur meira sjálfsöryggi og á auðveldara með að vinna úr upplýsingum og leysa verkefni. Með reglulegum hjólreiðum er auðveldara að takast á við streitu og kvíða og efla sjálfsöryggið.

Gerðu það vegna krakkanna

Kannanir í Bretlandi benda til þess að á næstu 10 árum muni verða fjórðungs aukning tilfella þar sem foreldrar lifa börn sín. Af hverju? Jafnvel þeir foreldrar sem stunda ekki hreyfinu lengur en eru líklegir  til að hafa gengið í skólann, reynt á sig við leiki og þannig byggt upp ónæmiskerfi sitt og styrkt hjartað. Því miður fara börn á mis við þessa mikilvægu þætti ef hreyfingu vantar í lífstílinn á heimilinu.

Hjálpaðu fjölskyldunni og þér sjálfri/sjálfum: Finndu tíma fyrir leiki eða frístundir sem reyna á líkamann. Hvettu til virks ferðamáta þó það sé aðeins að ganga í skólann eða í búðina. Leitaðu tækifæra til hreyfingar í daglegum störfum eins og að nota tröppurnar í stað lyftunnar. Lýðheilsustöð og fleiri aðilar bjóða upp á góð ráð þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl.

Upplifðu Ísland

Víðsvegar um landið eru falleg svæði sem hægt er að njóta enn betur á reiðhjóli. Þó ekki sé hjólað af meiri áreynslu en þegar maður röltir um má fara yfir miklu stærra svæði og upplifunin er miklu meiri en þegar horft er á landslagið líða framhjá bílrúðunni.

Það þarf ekki endilega að taka hjólin með sér því víða má leigja sér hjól . Sumstaðar er jafnvel boðið upp á ferðir með leiðsögn eftir vandfundnum slóðum sem bjóða upp á náttúruupplifun og eftirminnileg ævintýri.

Tvær mjög góðar ástæður fyrir þig til að hjóla til vinnu

Í danskri rannsókn þar sem fylgst var með 30,000 manns í 14 ár kom í ljós að dánartíðni þeirra sem hjóluðu milli staða a.m.k. hálftíma á dag var 28% lægri en hjá hinum. Þeir lifðu lengur og við betri heilsu.

Finnsk rannsókn sýndi á sama hátt 40% lægri tíðni sykursýki meðal þeirra sem hjóluðu reglulega miðað við hina. Ótal fræðigreinar fjalla um fjölmarga kosti hjólreiða og jafnvel British Medical Association telur kosti hjólreiða tuttugufalda á við áhættuna.


Þýtt og staðfært: PG  
www.cyclingscotland.org/get-cycling