Hjólreiðar - frábær fararmáti 2011-2012

Gefið út í samvinnu Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Landssamtaka hjólreiðamanna
og dreift í tengslum við Hjólað í vinnuna keppnina

 

Leiðarinn:

Á vorin taka margir sig til og prófa hjólið sem samgöngutæki og skilja bílinn eftir heima. Það þarf hvorki sérstakan útbúnað né sérstakan fatnað. Þetta er ekki flókið og allir ættu að prófa.

Það mælir allt með hjólreiðum. Þær eru ekki einungis einn öruggasti og ódýrasti ferðamátinn, heldur bæta reglulegar hjólreiðar heilsu, hreysti, lund og línur. Með reglulegum hjólreiðum bæta hjólreiðamenn heilbrigðum árum við líf sitt og njóta hreysti á við fólk sem er 10 árum yngra. Það er því ekki skrítið hversu margir komast að því að þessi ferðamáti leysir úr ýmsu sem áður var vandamál s.s. að finna tíma fyrir líkamsrækt og peninga fyrir bensíni.

Við höfum mörg þá sýn að í framtíðinni velji fólk sér sjálft fararmáta sem gerir þeim gott og hefur ekki skaðleg áhrif á umhverfið. Þetta þarf alls ekki að vera fjarlæg framtíðarsýn því nú þegar stefna yfirvöld í Kaupmannahöfn á að  50% hjóli til vinnu árið 2015. Aðstæður eru ekki svo frábrugðnar á Íslandi, það snjóar líka í Danmörku. Nýleg dæmi sýna að með djörfung og dug geta stjórnvöld margfaldað notkun reiðhjóla í borgum og má þar nefna sexföldun í Sevilla á Spáni sem dæmi en einnig London, París, Bogota og fl. Auknar hjólreiðar eru allra hagur, hjólreiðamenn setja svip sinn á hverja borg og eru tákn um heilbrigðan lífsstíl borgarbúa.

Þessi bæklingur er gefinn út til þess að hvetja fólk til hjólreiða og til að fræða um hvernig öruggast og þægilegast er að stunda hjólreiðar. Hann kemur út samhliða vinnustaðakeppninni „Hjólað í vinnuna“, þegar þúsundir manna flykkjast út á göturnar og hjóla til og frá vinnu.  Þetta er annar Hjólreiðabæklingurinn frá okkur og er efni þeirra aðgengilegt á hjolreidar.is ásamt meiri fróðleik.

Sú tækni sem kennd er í kaflanum um samgönguhjólreiðar er ekki ný af nálinni heldur er hún viðurkennd og kennd víða um heim, þótt aðrir en LHM og ÍFHK hafi ekki sinnt þeirri fræðslu með skipulögðum hætti á Íslandi hingað til. ÍFHK og LHM hafa kynnt þessa tækni markvisst síðan 2007 með fyrirlestrum, útgáfu á fréttablaði, á heimasíðum sínum og einnig þjálfað upp Hjólafærnikennara sem hafa haldið námskeið í Hjólafærni, þar sem þessi sama tækni er kennd. Hjólafærni.is býður upp á kennslu í samgönguhjólreiðum.

Það er von okkar, að þessi vefur hjálpi sem flestum að tileinka sér reiðhjólið sem öruggt samgöngutæki og njóta þeirra jákvæðu áhrifa sem sú hreyfing hefur á heilsuna, umhverfið og budduna. Kostir hjólreiða eru margfalt meiri en  áhættan; miðað við íslenskar slysatölur eru hjólreiðar einn öruggasti fararmátinn. Samkvæmt WHO deyr ein milljón evrópubúa árlega vegna hreyfingarleysis. Áætlað er að kostnaður bresks þjóðfélags af hreyfingarleysi hvers einstaklings sé 150-300 € (24-48.000 kr.) árlega.

Ekki gera ekki neitt.  Stígum á sveif með lífinu og skiljum kyrrsetulífernið eftir heima.

Páll Guðjónsson, ritstjóri.
Árni Davíðsson, formaður Landsamtaka hjólreiðamanna.
Örlygur Steinn Sigurjónsson , formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins